Vernharður Linnet

Vernharður Linnet

Vernharður Linnet lauk kennaraprófi 1968. Kenndi við Grunnskóla Þorlákshafnar til 1980, utan eins vetrar er hann nam við Danmarks Lærerhøjskole í Kaupmannahöfn. Í Þorlákshöfn sinnti hann m.a. tónlistarkennslu við skólann. Hann stundaði nám við Tónlistarskóla Reykjavíkur árin 1959-1961, eftir það nam hann saxófónleik hjá Andrési Ingólfssyni. Hann kenndi við Breiðholtsskóla frá 1980 til 2004, utan fimm ár er hann starfaði sem fastráðinn dagskrárgerðarmaður við Ríkisútvarpið. Frá 2004 hefur hann eingöngu starfað við djasstónlist, sem gagnrýnandi, þáttagerðarmaður og kennari. Vernharður hefur skrifað um djass í ýmis tímarit og dagblöð, íslensk sem erlend, frá 1964; var djassgagnrýnandi Helgarpóstsins 1979-1988 og Morgunblaðsins frá 1997 til þessa dags. Hann hefur rannsakað íslenska djasssögu lengi og vinnur nú að bók um efnið. Vernharður hefur verið formaður Jazzvakningar frá 1980 og var framkvæmdastjóri RúRek djasshátíðarinnar 1991-1996. Hann hefur unnið að gerð djassþátta fyrir Ríkisútvarpið frá 1980 m.a. um íslenska djasssögu. Vernharður hefur flutt fyrirlestra um djass hjá ýmsum félagasamtökum og skólum, allt frá grunnskólum til háskóla, og hefur kennt djasssögu við Tónlistarskóla FÍH frá 2014. Viðurkenningar fyrir kynningu á íslenskri djasstónlist: Gullheiðursmerki FÍH 2007 og Bjarkarlaufið 2009.

Netfang:

linnet@simnet.is

Símanúmer:

>