top of page

Á döfinni

laugardagur, 2. september 2023

Handbók nemenda

Handbók nemenda

Þegar nemandi hyggst hefja nám við skólann getur hann sótt um í gegnum heimasíðu skólans tonlistarskolifih.is og auk þess þarf hann líka að fylla út umsókn á Rafrænni Reykjavik rafraen.reykjavik.is Þessi tvöfalda skráning er til að halda utan um nemendafjölda og gefa fólki kost á að nýta frístundarkort þar sem við á. Síðan er umsóknin metin og nemendur boðaðir í inntökupróf í skólann.
Inntökuprófin fara þannig fram að viðkomandi nemandi fær póst með upplýsingum um tímasetningu, lengd prófs og hvað ber að undirbúa. Þetta eru stutt viðtöl og áheyrn, um það bil 7 mínútur þar sem kennarar við skólann meta færni og ákveða hvaða kennari hentar. Nemendur geta þó alltaf óskað eftir ákveðnum kennara og reynt er að verða við þeim óskum eins og kostur er. Venjan er að nemandi undirbúi 1 lag sem hann getur flutt með undirspili úr tölvu eða síma eða jafnvel fengið aðstoð prófdómara. Þau sem sækja um söng fá lista yfir möguleg prófverkefni.
Síðan þegar umsóknin hefur verið samþykkt og búið er að ákveða kennara og eðli náms, mun kennarinn hafa samband og í sameiningu fundinn hentugur tími fyrir einkatímana.
Einkatíminn getur verið 1 klst á viku (heilt nám) eða 30 mín á viku (hálft nám). Ef um söngnám er að ræða, þá bætist við undirleikur annan hvern tíma.
Bóklegu tímarnir eru á föstum tímum en í sumum tilfellum er hægt að velja um tvær mismunandi tímasetningar.

Námið;
Náminu er skipt í þrjá námsáfanga, grunnnám, miðnám og framhaldsnám, og lögð áhersla á samræmt námsmat við lok áfanganna.
Hugtakið rytmísk tónlist er safnheiti yfir djass, rokk og skyldar tónlistartegundir sem ekki teljast til klassískrar tónlistar í almennri merkingu þess hugtaks. Miðað er við að nám í rytmískri tónlist sé eins upp byggt og lúti sömu lögmálum og annað tónlistarnám sem skilgreint er í aðalnámskrá tónlistarskóla en viðfangsefni eru að miklu leyti önnur.
Viðfangsefni nemenda í rytmísku námi geta verið margvísleg og ættu allar gerðir rytmískrar tónlistar, þ.m.t. djass, popp, rokk og ólíkar gerðir heimstónlistar, að geta rúmast innan námsins eftir óskum nemenda, áherslum og aðstæðum á hverjum stað. Æskilegt er að nemendur í grunnnámi kynnist eins fjölbreyttri rytmískri tónlist og kostur er.
Í mið- og framhaldsnámi er aukin áhersla lögð á djasstónlist sem nokkurs konar þungamiðju í náminu þó að áfram sé rúm fyrir aðrar gerðir rytmískrar tónlistar. Ástæður þessa eru meðal annars mun lengri kennsluhefð og meira námsefnisframboð í djasstónlist en í öðrum gerðum rytmískrar tónlistar. Þá má benda á að við lok framhaldsnáms er gert ráð fyrir að nemendur séu undir það búnir að takast á við háskólanám í rytmískri tónlist hér heima eða erlendis, en víðast hvar er slíkt nám mjög djassmiðað.
Kennarar bera faglega ábyrgð á undirbúningi nemenda og á því að meta hvenær þeir eru tilbúnir til að þreyta áfangapróf í hljóðfæraleik og tónfræðum.
Það ræðst eingöngu af heildareinkunn allra prófþátta í hljóðfæraleik og tónfræðum hvort nemandi stenst próf eða ekki. Til að standast áfangapróf þarf nemandi að ná samtals 60 einingum í hljóðfæraleik sem samsvarar lágmarkseinkunn 6,0 og jafnframt að hljóta sömu lágmarkseinkunn í tónfræðagreinum.
Grunnpróf:
Grunnpróf tónlistarskóla er tvíþætt: hljóðfærapróf og tónfræðapróf. Til að standast prófið þarf 60 einingar af 100 mögulegum í hljóðfæraleik, þ.e. lágmarkseinkunn er 6,0. Sömu lágmarkseinkunn þarf í tónfræðagreinum. Ekki eru gerðar kröfur um lágmarksárangur í einstökum prófþáttum. Ekki þarf að ljúka báðum þáttum prófsins á sama árinu.
Tónfræðapróf:
Gert er ráð fyrir að nemendur í rytmísku tónlistarnámi stundi almennt grunnnám í tónfræðagreinum og ljúki grunnprófi samkvæmt námskrá í tónfræðagreinum. Prófkröfur á grunnprófi í tónfræðagreinum miðast við þekkingu og færni nemenda við lok grunnnáms. Nemenur taka samræmt próf í lok áfangans.
Miðpróf:
Til að geta þreytt miðpróf tónlistarskóla þarf nemandi áður að hafa lokið grunnprófi að fullu. Miðprófið er tvíþætt: hljóðfærapróf og tónfræðapróf. Til að standast prófið þarf 60 einingar af 100 mögulegum í hljóðfæraleik, þ.e. lágmarkseinkunn er 6,0. Sömu lágmarkseinkunn þarf í tónfræðagreinum. Ekki eru gerðar kröfur um lágmarksárangur í einstökum prófþáttum. Ekki þarf að ljúka báðum þáttum prófsins á sama árinu.
Miðpróf í tónfræðagreinum er þrískipt, þ.e. munnlegt próf, skriflegt próf og hljóðfæraleikur. Skal öllum hlutum prófsins lokið á sama skólaári. Miða skal við að próftími á munnlegu prófi og hljóðfæraprófi fari ekki fram yfir 10 mínútur á hvern nemanda. Hámarkstími á skriflegu prófi er ein og hálf klukkustund. Prófþættir á miðprófi eru þessir:
A. Munnlegt próf (20 einingar)
1. Hryndæmi endurtekið eftir heyrn (5 einingar)
2. Hryndæmi lesið af blaði (5 einingar)
3. Laglína endurtekin eftir heyrn (5 einingar)
4. Laglína lesin af blaði (5 einingar)
B. Skriflegt próf (60 einingar)
1. Skriflegt próf (20 einingar)
2. Hlustun og greining (20 einingar)
3. Tónfræðileg þekkingaratriði (20 einingar)
C. Verklegt próf (á hljóðfæri) (20 einingar)
1. Brotnir hljómar og tónstigar leiknir yfir gefinn hljómagang (10 einingar)
2. Laglína og spuni yfir gefinn hljómagang (10 einingar), þremur til fjórum vikum fyrir próf fær nemandi uppgefið lag, þ.e. hljómagang og laglínu. Í prófinu flytur nemandinn dæmið, þ.e. allt formið, fjórum sinnum samfellt. Fyrst er leikin laglína, þá brotnir hljómar, tónstigar og loks spuni yfir hljómferlið.
Viðmiðunarlengd viðfangsefnis er 16-32 taktar.
Trommuleikarar geta valið um að leika á ásláttarhljómborð, píanó eða syngja.
Söngvarar velja á milli þess að syngja eða leika á píanó.
Aðrir leika á aðalhljóðfæri sitt.
Allir þættir verklega prófsins eru fluttir utanbókar.

Framhaldsnám:
Framhaldsnám tekur við að loknu miðnámi.
Hér er um umfangsmikinn námsáfanga að ræða og marka lok hans jafnframt lok almenns tónlistarskólanáms. Einnig miðast lok framhaldsnáms við að þeir nemendur, sem stefna að háskólanámi í tónlist, séu vel undir það búnir.
Miðað er við að unnt sé að ljúka þessum námsáfanga á þremur árum, m.a. til að nemendur á listnámsbraut framhaldsskóla geti nýtt námið sem hluta af framhaldsskólanámi sínu.
Þó verður að gera ráð fyrir að námstími í framhaldsnámi sé einstaklingsbundinn og ræður þar miklu ástundun, aldur, þroski og hæfileikar nemenda.
Framhaldsnámið endar með framhaldsprófinu sjálfu, síðan er forpróf fyrir framhaldstónleika sem nemandi heldur. Í forprófinu þarf nemandi að vera búin að undirbúa þá efnisskrá sem lögð er til grundvallar og velur sjálfur 2 lög og prófanefnd önnur 2. Þetta er til að leggja mat á innihald tónleikanna og gefa ráð ef eitthvað mætti betur fara. Ef öll skilyrði eru uppfyllt má nemandi halda tónleikana þegar hentar.
Í framhaldsnámi skiptist tónfræðanám í fernt, þrjár kjarnagreinar og valgrein. Kjarnagreinarnar eru: djasshljómfræði, djasstónheyrn og djass- og rokksaga en auk þess ber öllum nemendum að stunda nám í einni valgrein.

Djasshljómfræði:
Gert er ráð fyrir að við lok miðnáms hafi nemendur annars vegar öðlast skilning og leikni í almennum tónfræðum og hins vegar kynnst undirstöðuatriðum hagnýtrar djasshljómfræði.
Sértækt djasshljómfræðinám hefst við upphaf framhaldsnáms. Í náminu er lögð áhersla á þekkingu og aðferðir sem nýtast við spuna og tónsmíðar á sviði rytmískrar tónlistar.
Unnið er meðal annars með byggingu og hlutverk hljóma, tengsl þeirra við tónstiga, laglínu og formgreiningu. Auk þess er hljómfræðinámi ætlað að auka skilning nemenda á innri gerð og innviðum tónlistar. Þennan skilning má efla enn frekar með tengslum við tónlistarsögu, tónheyrn og hljómborðsfræði.


Tónheyrn:
Námi í tónheyrn er ætlað að auka tónnæmi og þroska heyrn nemenda. Byggt er á þeim grunni sem lagður var í grunn- og miðnámi. Í framhaldsnámi er einkum unnið með laglínur í dúr og moll með stöku tónum utan tóntegundar, tónbil innan tveggja áttunda og fjölbreytt hryndæmi sem m.a. innihalda yfirbindingar og þríólur. Sérstök áhersla er á hljómrænt tungumál djass- og popptónlistar: staka hljóma og hljómaraðir. Auk þess fást nemendur við einfaldar tveggja radda laglínur og stutt atónal dæmi. Mikilvægt er að tengsl tónheyrnar við hljómfræði séu ræktuð og að greinarnar styðji hvor aðra. Regluleg ástundun er lykilatriði í tónheyrnarnámi.

Djass- og rokksaga:
Í framhaldsnámi er gert ráð fyrir að nemendur öðlist haldgóða þekkingu og góða yfirsýn yfir djasssögu og rokksögu frá upphafi til samtímans. Miðað er við að námið sé kynning á helstu straumum, stefnum og listamönnum þessara tónlistartegunda. Kenna má djasssögu og rokksögu sitt í hvoru lagi eða samþætt. Hlustun er órjúfanlegur þáttur í lifandi tónlistarsögukennslu. Tengsl hennar við aðra þætti námsins eru mikilvæg. Æskilegt er að tengja djass- og rokksögu við aðra tónlistarsögu og mannkyns- og menningarsögu á hverjum tíma eftir því sem tök eru á.

Valgrein:
Auk framangreindra greina skulu nemendur hafa lokið einum valáfanga í tónfræðagreinum við lok framhaldsnáms. Valgrein er annaðhvort ætlað að víkka sjóndeildarhring nemenda eða dýpka þekkingu þeirra á tilteknu sviði.
Miðað er við að umfang náms í valgrein samsvari eins vetrar reglubundnu námi í tónfræðagrein, þ.e. að lágmarki einni vikustund. Skólum er í sjálfsvald sett hvaða valgrein eða valgreinar boðið er upp á. Ýmislegt kemur hér til greina en hér á eftir fara nokkur dæmi um mögulegar valgreinar: tónsmíðar, sértækir tónlistarsöguáfangar, framhaldsáfangar í tónheyrn og útsetningum, snarstefjun, tölvutækni og upptökutækni. Einnig býður fjarnám upp á ýmsa möguleika fyrir nemendur.

Samspil:
Samspil eru opin nemendum á öllum stigum námsins. Það eru allir nemendur boðaðir í samspilsprufur að hausti, þeir fá tölvupóst með tímasetningum og upplýsingum um hvað þeir þurfa að undirbúa og hafa meðferðis (hljóðfæri, snúru, mic, cymbala o.s.frv.). Reynt er eftir fremsta mætti að raða fólki á svipuðu getustigi saman í hópa og það fara fram vikulegar æfingar undir handleiðslu kennara allan veturinn.
Hvert samspil kemur svo fram á tónleikum fyrir jól með öðru samspili og flytur 30 mínútna prógramm. Í lok skólaárs heldur hver hópur fyrir sig 60 mínútna prógramm. Undanfarin ár hefur verið boðið uppá upptöku-session þar sem hverju samspili gefst kostur á 2 klst til að hljóðrita efni til að eiga. Samspil er valkvætt fyrir nemendur en við lok náms er þó gert ráð fyrir að nemandi hafi verið þáttakandi í a.m.k. einu samspili.


Söngdeildarsamspil:
Söngdeild FÍH heldur út eigin samspili þar sem leitast er við að gefa söngnemendum kost á að æfa með hljómsveit. Hljómsveitin samanstendur af nemendum sem sótt hafa í samspilsprufum. Þessi hópur hefur flest ár staðið fyrir uppsetningu á söngsýningu og því eftir miklu að sækjast að komast í það samspil.

Slagverksdeildarsamspil:
Slagverksdeildin hefur undanfarin ár haldið úti annarsvegar slagverksæfingum fyrir byrjendur og hins vegar slagverksdeildar samspili þar sem nemendur á önnur hljóðfæri bætast í hópinn, það ræðst þó af fjölda slagverksnemenda sem eru tilbúnir til þáttöku.

Fjarkennsla F.Í.H.:
Vefsetrið www.tonlistarkennsla.net er námstorg fyrir fræðigreinar tónlistarskóla.
Þessi kostur hefur hentað nemendum og skólum þar sem nemendur einhverra hluta vegna komast ekki í staðarnám, t.d. sökum anna.
Námið byggir alfarið á námskrá í tónfræðum.
Námið fer fram með kennslumyndböndum, spjallþráðum, gagnvirkum æfingaprófum sem og prófum, ritgerðum og vinnu í sérhæfðu veflægum nótnaskriftarhugbúnaði.
Ef nemandi lýkur tónfræði 101 og 102, tónheyrn og tónlistarsögu hjá tonlistarkennsla.net hefur hann lokið öllum kröfum til miðnáms skv. aðalnámskrá og er því fær um að þreyta miðpróf í tónfræðigreinum.

Stutt lýsing áfanga á www.tonlistarkennsla.net

Tónfræði 101 Haust og vorönn : Tryggir grunnprófsþekkingu í tónfræði. Öll atriði grunnnáms sem kveðið er á í námsskrá, þar á meðal tónheyrn og tónlistarsögu.
Tónfræði 102 Haust og vorönn : Framhald af tónfræði 101 - Miðnámsefni í tónfræði (fer í öll atriði sem kveðið er á í námsskrá til miðprófs í tónfræði)
Tónlistarsaga 101 Haust og vorönn: Ítarlegur tónlistarsöguáfangi þar sem sagan er rakin frá miðöldum til dagsins í dag. Mánaðarleg próf - ritgerðir - Hljóðdæmi, texti, myndefni og nótur.
Höfundar texta eru: Árni Heimir Ingólfsson, Vernharður Linnet, Jónatan Garðarsson og Stefán S. Stefánsson. Öll atriði miðnáms eru yfirfarin og prófuð.
Lagt við hlustir – Tónheyrn 101 - Tónheyrn sem byggir á verklegri þjálfun. Tonlistarkennsla.net hefur í samvinnu við hugbúnaðarfyrirtækið Auralia sett upp þjálfunaráfanga sem gerir miklar kröfur til nemenda um tónheyrnaræfingar. Söngur, klapp, upprit og margt fleira. Ein önn.


Prófanefndarprófin :
Við lok grunnnáms, miðnáms og framhaldsnáms skulu nemendur þreyta áfangapróf, annars vegar í hljóðfæraleik og hins vegar í tónfræðigreinum.

Grunnpróf ;

Nemandi þarf að ljúka almennu tónfræðinámi á grunnstigi til að hægt sé að gefa út prófskírteini.


Grunnpróf (Hljóðfærapróf).

1) Verk: a) 2 ólík aðallög
b) 1 lag af fjögurra laga safnlista (valið af prófdómara)

2) Æfing: Lestraræfing (í samræmi við kröfur námsskrár)

3) Tónstigar og hljómar (í samræmi við kröfur námsskrár)

4) Val: a) Leiki frumsamið verk eða eigin útsetningu. b) Leiki verk samkvæmt klassískri námsskrá af sambærilegri þyngd og önnur prófverkefni.

5) Óundirbúinn nótnalestur: a) Hefðbundinn nótnalestur. b) Lestur bókstafshljóma og spuni yfir þá.


Grunnpróf (Söngur).

1) Verk: a) 2 ólík aðallög
b) 1 lag af fjögurra laga safnlista (valið af prófdómara)

2) Raddæfingar: í samræmi við kröfur greinarnámsskrár

3) Tónstigar og hljómar (í samræmi við kröfur námsskrár)

4) Val: a) Syngi frumsamið verk eða eigin útsetningu. b) Syngi verk samkvæmt klassískri námsskrá af sambærilegri þyngd og önnur prófverkefni.

5) Óundirbúinn nótnalestur: a) Hefðbundinn nótnalestur. b) Lestur bókstafshljóma og spuni yfir þá.

Grunnpróf (Slagverk).

1) Verk: a) 2 ólík aðalverk
b) Taktbrigðalisti: Tvö verkefni af lista fjögurra taktbrigða (valið af prófdómara)

2) Æfing á sneriltrommu

3) Tækniæfingar: a) Undirstöðuæfingar samkvæmt námsskrá. b) Handsetningaræfingar: Önnur af tveimur æfingu, frá hægri eða vinstri hendi (valin af prófdómara). c) Samhæfingaræfingar: önnur af tveimur æfingum (valin af prófdómara)

4) Val: a) Leiki frumsamið verk eða eigin útsetningu. b) Leiki verk samkvæmt klassískri námsskrá af sambærilegri þyngd og önnur prófverkefni.

5) Óundirbúinn nótnalestur: a) Viðfangsefni á sneriltrommu. b) Viðfangsefni á trommusett..Miðpróf;

Nemandi þarf að ljúka miðprófi í tónfræðigreinum. Miðprófið er þrískipt, munnlegt próf, skriflegt próf og hljóðfæraleikur. Gert er ráð fyrir að nemandi hefji séhæfðara nám í miðnámi, þá er átt við hljómfræði, tónheyrn, djasssögu og snarstefjun.


Miðpróf (Hljóðfærapróf).

1) Verk: a) 2 ólík aðallög, flutt með hljómsveit
b) 1 lag af fjórtán laga safnlista, flutt með hljómsveit (valið af prófdómara)
2) Upprit: flutt með upprunalegum flytjanda

3) Æfing: Lestraræfing (í samræmi við kröfur námsskrár)

4) Tónstigar og hljómar (í samræmi við kröfur námsskrár)

5) Val: a) Leiki frumsamið verk eða eigin útsetningu. b) Leiki verk að eigin vali af sambærilegri þyngd og önnur miðprófsverkefni. c) Leiki verk samkvæmt klassískri námsskrá af sambærilegri þyngd og önnur prófverkefni.

6) Óundirbúinn nótnalestur: a) Hefðbundinn nótnalestur. b) Lestur bókstafshljóma og spuni yfir þá.Miðpróf (Söngur).

1) Verk: a) 2 ólík aðallög, flutt með hljómsveit
b) 1 lag af fjórtán laga safnlista, flutt með hljómsveit (valið af prófdómara)

2) Upprit: flutt með upprunalegum flytjanda

3) Æfing: Lestraræfing (í samræmi við kröfur námsskrár)

4) Tónstigar og hljómar (í samræmi við kröfur námsskrár)

5) Val: a) Syngi frumsamið verk eða eigin útsetningu. b) Syngi verk að eigin vali af sambærilegri þyngd og önnur miðprófsverkefni. c) Syngi verk samkvæmt klassískri námsskrá af sambærilegri þyngd og önnur prófverkefni.

6) Óundirbúinn nótnalestur: a) Hefðbundinn nótnalestur. b) Lestur bókstafshljóma og spuni yfir þá.Miðpróf (Slagverk).

1) Verk: a) 2 ólík aðalverk, a.m.k. annað þeirra flutt með hljómsveit
b) Taktbrigðalisti: Tvö verkefni af lista 14 taktbrigða (valið af prófdómara)

2) Upprit: flutt með upprunalegum flytjanda

3) Æfing á sneriltrommu

4) Tækniæfingar: a) Undirstöðuæfingar samkvæmt námsskrá. b) Handsetningaræfingar: Ein af þremur, frá hægri eða vinstri hendi (valin af prófdómara). Samhæfingaræfingar: ein af þremur æfingum (valin af prófdómara).

5) Val: a) Leiki frumsamið verk eða eigin útsetningu. b) Leiki verk samkvæmt klassískri námsskrá af sambærilegri þyngd og önnur prófverkefni.

6) Óundirbúinn nótnalestur: a) Hefðbundinn nótnalestur. b) Lestur bókstafshljóma og spuni yfir þá.

Framhaldspróf;
Framhaldspróf í tónfræðagreinum er fjórskipt, þ.e. djasshljómfræði, tónheyrn, tónlistarsaga og valgrein, og skal gefin einkunn í hverri grein fyrir sig. Þannig þurfa nemendur að hafa hlotið einkunnina 6,0 í hverri framantalinna tónfræðagreina. Ekki er nauðsynlegt að ljúka öllum tónfræðagreinunum á sama skólaári.

Framhaldspróf (Hljóðfærapróf).

1) Verk: a) 2 ólík aðallög, flutt með hljómsveit
b) 1 lag af 32 laga safnlista, flutt með hljómsveit (valið af prófdómara)
2) Upprit: flutt með upprunalegum flytjanda

3) Æfing: Lestraræfing (í samræmi við kröfur námsskrár)

4) Tónstigar og hljómar (í samræmi við kröfur námsskrár)

5) Val: a) Leiki frumsamið verk eða eigin útsetningu. b) Leiki verk að eigin vali af sambærilegri þyngd og önnur miðprófsverkefni. c) Leiki verk samkvæmt klassískri námsskrá af sambærilegri þyngd og önnur prófverkefni.

6) Óundirbúinn nótnalestur: a) Hefðbundinn nótnalestur. b) Lestur bókstafshljóma og spuni yfir þá.


Framhaldspróf (Söngur).

1) Verk: a) 2 ólík aðallög, flutt með hljómsveit
b) 1 lag af 32 laga safnlista, flutt með hljómsveit (valið af prófdómara)

2) Upprit: flutt með upprunalegum flytjanda

3) Æfing: Lestraræfing (í samræmi við kröfur námsskrár)

4) Tónstigar og hljómar (í samræmi við kröfur námsskrár)

5) Val: a) Syngi frumsamið verk eða eigin útsetningu. b) Syngi verk að eigin vali af sambærilegri þyngd og önnur miðprófsverkefni. c) Flytji samsöngsverkefni af sambærilegri þyngd og önnur framhaldsprófsverkefni þar sem próftaki gegnir veigamiklu hlutverki.

6) Óundirbúinn nótnalestur: a) Hefðbundinn nótnalestur. b) Lestur bókstafshljóma og spuni yfir þá.

Framhaldspróf (Slagverk).

1) Verk: a) 2 ólík aðalverk, a.m.k. annað þeirra flutt með hljómsveit
b) Taktbrigðalisti: Tvö verkefni af lista 32 taktbrigða (valið af prófdómara)

2) Upprit: flutt með upprunalegum flytjanda

3) Æfing á sneriltrommu

4) Tækniæfingar: a) Undirstöðuæfingar samkvæmt námsskrá. b) Handsetningaræfingar: Ein æfing af fjórum, frá hægri eða vinstri hendi (valin af prófdómara). Samhæfingaræfingar: Ein æfing af fjórum (valin af prófdómara).

5) Val: a) Leiki frumsamið verk eða eigin útsetningu. b) Leiki verk að eigin vali af sambærilegri þyngd og önnur framhaldsprófsverkefni. c) Leiki verk á annað hljóðfæri úr sömu fjölskyldu og aðalhljóðfæri.

6) Óundirbúinn nótnalestur: a) Hefðbundinn nótnalestur. b) Lestur bókstafshljóma og spuni yfir þá.Framkvæmd prófa á mið- og framhaldsstigi :
Á mið- og framhaldsstigi er gert ráð fyrir að nemandi sé studdur af hljómsveit eða einhverskonar undirleikssveit. Það geta verið allt frá tríó uppí stórsveit allt eftir samsetningu efnisskrár sem flutt er. Það er gert ráð fyrir að nemandi hafi valið sér meðleikara úr röðum samnemanda eða meðleikara úr samspilum sem þeir hafa æft með. Þó kemur stundum fyrir að nemandi lendir í vandræðum með að manna slíkan undirleik og þarf að leita eftir aðstoð kennara. Í sumum tilfellum er þetta gert sem greiði en í öðrum er kennarinn ekkert tengdur viðkomandi. Þá er í boði að sækja um undirleikarastyrk hjá skólastjóranum og í boði eru að hámarki 2 styrkir upp á 30 þúsund hvor. Greiðist að prófi/lokatónleikum loknum. Þessi styrkur á að greiða fyrir tvær 90 mínútna æfingar, hljóðprufu og framkomu á prófi/próftónleikum. Ef nemandi þarf lengri tíma til undirbúnings verðu hann að semja um slík frávik sjálfur.

Ef nemandi hefur ekki lokið þeim bóklegu greinum sem tilheyra viðeigandi stigi, er ekki gefið út prófskírteini fyrr en að þeim loknum. Í þessu felst líka ákveðin sveigjanleiki, þ.e.a.s. nemandi hefur möguleika á að ljúka verklega hlutanum þó að bóklega hlutanum sé ekki að fullu lokið.


Ástundun og framþróun náms :
Það er mikilvægt fyrir nemendur að átta sig á því að góð ástundun er forsenda framþróunnar í öllu námi og þá sérstaklega tónlistarnámi. Í raun þá er veltur það mikið á dugnaði nemenda hversu lengi námið varir. Það er reglulega boðið uppá fyrirlestra og Masterclass-a hér í skólanum, nemendum að kostnaðarlausu. Nemendur ættu að sækja sem flesta viðburði af þessu tagi þó að ekki sé um þeirra aðalhljóðfæri að ræða, ein setning hjá fyrirlesara getur breytt hvernig við nálgumst tónlist og virkað eins og vítamínsprauta í námið.

Nokkur atriði varðandi veikindi nemenda og kennara:
Ef nemandi kemst ekki í tíma vegna veikinda ber honum að tilkynna það sem fyrst til síns kennara, svo hann geti gert ráðstafanir. Að sama skapi ber kennara að láta nemanda vita sem fyrst ef henn er veikur eða getur einhverra hluta ekki mætt í kennslustund. Í tilfelli veikinda kennara eða nemenda, er tíminn ekki bættur upp. En fari svo að tíminn falli niður hjá kennara, af öðrum orsökum en vegna veikinda, er til þess ætlast að nemandanum sé bættur tíminn. Í sumum tilfellum getur komið upp sú staða að nemandi kemst ekki í einkatímann, þá ber honum að af hafa samband við sinn kennara með minnst sólarhrings fyrirvara til að unnt sé að færa tímann á hentugri tíma, annars fellur tími niður.

Samspilin eru mjög mikilvægur þáttur tónlistarnámsins og reynt er eftir fremstu getu að koma sem flestum að í þeim á einhverjum tíma skólagöngunnar. Á hverju hausti eru allir nemendur skólans boðaðir í inntökupróf og fær hver nemandi um 7 mínútur. Í þessum inntökuprófum er verið að athuga getustig nemenda til að raða saman þeim sem eru á svipuðum stað í náminu.
Prufurnar fara þannig fram að nemendi mætir og flytur eitt lag með undirleik úr tölvu/síma eða með kennara sem hlustar á prufurnar. Einnig er farið í grunnspurningar um þekkingu í nótnalestri/hljómalestri og hvort þeir séu kunnugir helstu tónstigum sem hægt er að styðjast við í spuna, undirleik og bassalínugerð. Einnig getur nemandi látið vita ef þeir hafa einhverjar óskir varðandi þá tónlistarstefnu sem þeir hafa áhuga á. Samspilin eru 90 mínútna tími allan veturinn og gert er ráð fyrir 30 mín. framkomu á jólatónleikum, í samfloti með öðru samspili í desember og 60 mín. sjálfstæðum tónleikum seint á vorönn.
Það er mjög mikilvægt að sinna samspilunum vel, því slök mæting kemur niður á öllum í hópnum. Góð ástundun er meira gefandi fyrir alla sem í samspilinu eru og geta reynst einstaklega dýrmæt reynsla. Því að mati margra nemanda sem hafa farið í gegnum þennan skóla, standa tímarnir með sampilunum uppúr.

Í gegnum samspilin myndast oft sambönd milli nemenda sem gagnast þeim þegar kemur að því að finna meðleikara í prófum og/eða á tónleikum. Einnig ná þessi sambönd oft út fyrir skólann og það er mörg dæmi þess að fólk tengist tónlistar- og vinaböndum um ókomna framtíð. Það er því eftir miklu að sækjast að komast í samspil og kynnast samnemendum sínum á lifandi hátt.


Hvet alla nemendur að tileinka sér góða tækni við æfingar á milli einkatíma og samspila, gott skipulag tryggir að nemendur séu að þjálfa allar hliðar síns tónlistarnáms jafnt og gerir um leið upplifun þeirra af náminu ánægjulegri. Það eru margir þættir í umhverfinu sem geta truflað einbeitningu, áreiti af farsímum, tölvum og spjaldtölvum eru allt hlutir sem hafa áhrif. Því er heillaráð að áætla sér vissan æfingartíma og einangra sig frá óþarfa áreiti, það eykur gæði æfinganna til mikilla muna.

Það er mjög mikilvægt að muna að þú ert á eigin forsendum að taka ákvörðun um að stunda tónlistarnám sem getur gefið þér lífsfyllingu, hvort sem þú ætlar að hafa af því ánægju, atvinnu eða kenna tónlist í framtíðinni. Þó að talað sé um mætingarskyldu og ástundunareinkunnir, snýst þetta einfaldlega um að þú lærir ef þú mætir. Tónlistarnám er listnám og er því til þess fallið að næra sköpunargáfu nemenda og grundvöllur fyrir góðri “næringu” er gott samstarf við kennara og samnemendur, samstarf sem byggir á gagnkvæmri virðingu fyrir skoðunum hvers annars.

bottom of page