Stefán S. Stefánsson
Fræðigreinar
Fæddur 1957. Saxófónleikari, tónskáld og útsetjari. Stúdentspróf úr eðlisfræðideild Menntaskólans við Tjörnina 1977. Nám í heimspeki við Háskóla Íslands 1979-1980. Þverflautunám við Tónskóla Sigursveins og Tónlistarskólann í Reykjavík. Einkatímar á saxófón hjá Gunnari Ormslev. Lauk Bachelor of Music.(BM) prófi frá Berklee College of Music 1980-1983 í Boston og sótti nám í jazztónsmíðum við sama skóla 1988. Nám við tölvunarfræðibraut Iðnskólans í Reykjavík. Nám við tölvunarfræðideild Háskóla Reykjavíkur 2002 og 2005 í kerfisfræði ásamt fjölda námskeiða í tölvutækni. Stefán hefur leikið með ýmsum dans- og jazzhljómsveitum og starfað sem hljóðfæraleikari í leikhúsum, Sinfóníuhljómsveit Íslands og með Stórsveit Reykjavíkur sem stjórnandi og hljóðfæraleikari. Hann hefur útsett og samið mikið af tónlist m.a. fyrir Stórsveit danska útvarpsins, Íslensku hljómsveitina og Stórsveit RÚV. Þá hefur hann gert kvikmyndatónlist og tónlist og texta á hljómplötur m.a. fyrir hljómsveitirnar Ljósin í bænum, Gamma, Mezzoforte, Tamlasveitina og Björn Thoroddsen. Stefán er nú starfandi kennari og skólastjóri við Tónlistarskóla Árbæjar ásamt hljóðfæraleik með ýmsum hljómsveitum. Stefán hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2015 sem tónhöfundur ársins og fyrir plötu ársins í jazzflokki: Íslendingur í Alhambrahöll.
698 1597