Svanur Vilbergsson
Gítarkennari
Svanur hóf gítarnám sitt hjá Torvald Gjerde, Garðari Harðarssyni og Charles Ross við Tónlistarskóla Stöðvarfjarðar og Tónlistarskólann á Egilsstöðum. Sautján ára fór hann til Englands til náms við King Edwards VI menntaskólann í Totnes þar sem gítarkennari hans var Colin Spencer og útskrifaðist þaðan af tónlistar- og líffræðibraut árið 2001. Þaðan hélt hann til Spánar og sótti þar einkatíma hjá Arnaldi Arnarssyni við Escola Luther. Árið 2002 hóf Svanur nám hjá ítalska gítarleikaranum Carlo Marchione við Tónlistarháskólann í Maastricht og lauk þaðan B.Mus. gráðu vorið 2006. Sama ár hóf hann mastersnám hjá Enno Voorhorst við Konunglega Tónlistarháskólann í Haag sem hann lauk vorið 2008. Þá hefur hann einnig sótt tíma hjá Sonju Prunnbauer í Freiburg. Svanur hefur haldið einleikstónleika víða um heim, m.a. í Bandaríkjunum, Hollandi, Spáni, Englandi, Belgíu og Írlandi. Honum er reglulega boðið að spila í Casa Eulalia tónleikaröðinni á Mallorca og á nútímatónlistarhátíðinni Klanken Festival í Maastricht. Á meðal nýlegra verkefna hafa verið tónleikar á Inishowen International Guitar Festival á Írlandi, Semersooq gítarhátíðinni á Grænlandi og Sommer melbu hátíðinni í Noregi. Hann hefur komið fram í sjónvarpi í Bandaríkjunum og á Spáni og var valinn fyrir Íslands hönd til þátttöku í norsk-íslenska menningarverkefninu Golfstraumurinn. Spænska tónskáldið Mateu Malondra Flaquer hefur tileinkað honum verk fyrir sóló gítar og í febrúar 2014 frumflutti hann í Hörpu, ásamt Kammersveit Reykjavíkur, gítarkonsertinn Halcyon Days sem saminn var af tónskáldinu Oliver Kentish og tileinkaður Svani. Árið 2011 kom út fyrsti einleiksdiskur Svans sem kallast Four Works og hefur honum verið einkar vel tekið. Svanur er listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar „Lofað öllu fögru“ sem fram fer í Þjóðmenningarhúsinu og alþjóðlegu gítarhátíðarinnar Midnight Sun Guitar Festival. Svanur kennir klassískan gítarleik við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, Tónlistarskóla FÍH, Tónlistarskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands.
857 3901